Nýir garðar í Brautarholti og á háskólasvæði

Nýir garðar í Brautarholti og á háskólasvæði

Næsta haust munu 100 íbúðir verða teknar í gagnið, nýir garðar í Brautarholti. Staðsetning garðanna er á margan hátt hentug fyrir stúdenta við Háskóla Íslands sem sækjast eftir að búa í nágrenni við skólann og miðsvæðis í borginni. Brautarholt er í göngufæri við húsnæði HÍ í Stakkahlíð og sömuleiðis hægt að ganga og hjóla til og frá háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni.  Frá Brautarholti er stutt í almenningssamgöngur og alla þjónustu.

Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands hafa undirritað samkomulag um stækkun Stúdentagarða um 230-300 einingar á háskólasvæðinu. Hluti íbúðanna verða við Gamla Garð sem opnaður var fyrir rúmum 80 árum. Flestar nýju íbúðanna verða hinsvegar staðsettar á horni Sæmundargötu og Eggertsgötu. Á komandi misserum er því stefnt að meiri uppbyggingu á háskólasvæðinu.

Leigueiningar á Stúdentagörðum eru í dag um 1.100 og í þeim búa um 1.700 manns, stúdentar við HÍ og fjölskyldur þeirra.