Úthlutunarreglur

Úthlutunarreglur

1. Réttur til Garðvistar

Garðvist geta þeir einir hlotið sem stunda reglulegt nám við Háskóla Íslands, sýna eðlilega námsframvindu og lofa að hlýða þeim reglum og fyrirmælum sem gilda á Stúdentagörðum. Til íslenskra stúdenta teljast þeir sem hafa íslenskan ríkisborgararétt. 
Núverandi nemendur verða að sýna fram á að þeir hafi lokið að minnsta kosti 20 einingum síðustu tvö misseri, það er 10 á hvoru misseri þegar sótt er um á Stúdentagörðum. Nýnemar sýna fram á skráningu í fullt nám.

1.1. Íslenskir stúdentar

Um íslenska stúdenta gilda þær reglur að forgangs til úthlutunar á einstaklingsherbergjum, einstaklingsíbúðum og paríbúðum njóta þeir, sem ekki eiga lögheimili á höfuðborgarsvæðinu. Ein af hverjum fjórum einstaklingsíbúðum skal þó fara til nema af höfuðborgarsvæðinu. Mun hlutfall þetta hækka til samræmis við aukinn einstaklingsíbúðafjölda er þeim verður fjölgað.

1.2. Erlendir stúdentar
Tiltekin fjöldi styrkþega á vegum menntamálaráðuneytis, Háskóla Íslands eða Fulbrightstofnunar, skulu njóta forgangs umfram aðra erlenda nema sem sækja um vist á Stúdentagörðum og mun sá forgangur taka til herbergja á Gamla Garði auk tvíbýla. Aðrir erlendir nemar falla í sama flokk og íslenskir nemar með lögheimili utan höfuðborgarsvæðis eða í samræmi við fjölskyldustærð. 
 
2. Leigutími
Leigutímabil íbúða/herbergja er sem hér segir: Hjóna- og Vetragarðar: 12. ágúst – 10. ágúst næsta árs, Sæmundargötu 18-20, 14. ágúst – 12. ágúst næsta árs, Sæmundargata 14-16: 15. ágúst – 13. ágúst næsta árs, Skógargarðar: 17. ágúst – 15. ágúst næsta árs, Skuggagarðar: 21. ágúst – 19. ágúst næsta árs, Eggertsgata 24: 23. ágúst – 21. ágúst næsta árs, Skerjagarðar: 25. ágúst – 23. ágúst næsta árs, Skjólgarður, 27. ágúst - 25. ágúst næsta árs, Gamli Garður 29. ágúst til 26. maí næsta árs og Ásgarðar (utan Eggertsgötu 24): 31. ágúst – 29. ágúst næsta árs.

Leigutaki og leigusali eru bundnir af samningi út leigutímabilið, leigutakar geta þó sagt honum upp á heimasvæði sínu á www.studentagardar.is með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara, frá næstu mánaðamótum að telja. Leigusali getur þó samþykkt skemmri fyrirvara séu sérstakar ástæður fyrir hendi, þó ekki skemmri en einn mánuð frá uppsögn. Leigusamningar á Gamla Garði eru óuppsegjanlegir á leigutímabilinu, 9 mánaða samningar. Þó er hægt að sækja sérstaklega um eitt misseri þ.e samning frá 29. ágúst til 31. desember eða 1. janúar til 26. maí.

2.1. Einstaklingsherbergi/íbúðir, par- og fjölskylduíbúðir
Einstaklingar geta sótt um einstaklingsherbergi, einstaklingsíbúðir eða tvíbýli. Barnlaus pör geta sótt saman um paríbúðir. Séu báðir umsækjendur í fullu námi í HÍ njóta þeir forgangs umfram aðra umsækjendur og skulu báðir uppfylla skilyrði um einingar, sjá nánar grein 7.2. Stúdentar með barn/börn geta sótt um 2-3 herbergja íbúðir, sé maki einnig í námi við HÍ, njóta þær fjölskyldur forgangs og skulu báðir aðilar uppfylla skilyrði um einingar. Fjölskylduíbúðir eru á Ásgörðum, Hjónagörðum, Skógargörðum, Skuggagörðum og Vetrargörðum. Fjögurra herbergja íbúðin í Vetrargarði er fyrir stærri fjölskyldur og eru umsóknir þar um meðhöndlaðar sérstaklega. Ef barn er væntanlegt og því ekki skráð í Þjóðskrá, skal umsækjandi skila þungunarvottorði til skrifstofu Stúdentagarða, innan viku frá gerð umsóknar.

Foreldri með sameiginlegt forræði með barni/börnum þar sem lögheimili barns/barna er hjá hinu foreldrinu, getur einnig sótt um fjölskylduíbúð. Skila þarf inn staðfestingu frá sýslumannsembætti um sameiginlegt forræði. Í sérstökum tilfellum er hægt að taka tillit til umgengnissamnings, gefi slíkur samningur rétta mynd af fjölskylduhögum umsækjanda  að mati Stúdentagarða. Að öðru leyti gilda upplýsingar frá Þjóðskrá við mat á fjölskyldustærð umsækjanda.

Miðað er við fjölda og aldur barna er íbúð er úthlutað, bæði er varðar forgang við úthlutun og stærð íbúðar sem úthlutað er. Þetta á þó ekki við þegar börn umsækjenda hafa náð 18 ára aldri (lögráða). Skulu þau ekki skráð á umsókn enda enginn forgangur veittur vegna þeirra. Einnig hafa einstæðir foreldrar og hjón í námi forgang umfram umsækjanda sem á maka sem ekki er skráður í fullt nám.

2.2. Umsóknir og biðlistar
Samþykktar umsóknir fara á viðeigandi biðlista innan forgangshóps (sjá grein 7) í þeirri röð sem þær berast skrifstofu Stúdentagarða.
 
3. Umsóknir
3.1. Umsóknartímabil
Skráðir nemendur við Háskóla Íslands geta sótt um Stúdentagarða allan sólarhringinn alla daga ársins og skal umsóknum raðað upp í þeirri röð sem þær berast innan forgangshópa (sjá grein 7). Nýnemar geta sótt um frá 1. maí ár hvert , hefji þeir nám að komandi hausti í HÍ. Sjá þó frávik fyrir haust 2020, en nýnemar geta komist fyrr að, nánari í leiðbeiningum. Nemar sem hyggjast hefja nám um áramót, geta sótt um á görðum frá og með 1. september haustið á undan. Tekið verður við umsóknunum með fyrirvara um skráningu í HÍ.

3.2. Skil umsókna
Umsóknum um Stúdentagarða skal skila á rafrænu formi á heimasíðu Stúdentagarða, www.studentagardar.is. Með því að senda inn umsókn heimilar umsækjandi Stúdentagörðum að sækja nauðsynlegar upplýsingar til Þjóðskrár og Háskóla Íslands. Einungis er heimilt að eiga eina umsókn inni í einu. Hyggist umsækjandi sækja um að nýju (breyttar aðstæður, aðrar íbúðartegundir), þá þarf hann að fella niður eldri umsókn sína áður en unnt er að senda inn nýja umsókn.

3.3. Svarfrestur
Öll samskipti umsækjanda og Stúdentagarða fara fram með rafrænum hætti við það netfang sem uppgefið er á umsókninni. Hafi umsækjandi athugasemdir við mat umsóknar eða úthlutun Stúdentagarða skal hann skila skriflegri athugasemd til úrskurðarnefndar Stúdentagarða innan fimm daga frá samþykkt umsóknar eða frá því að úthlutun var gerð.

3.4. Umsóknir sem vísað skal frá
3.4.1. Ófullnægjandi upplýsingar
Heimilt er að vísa umsókn frá ef hún er talin ófullnægjandi á einhvern hátt eða ef upplýsingar sem fram koma í umsókn reynast rangar. Þá skal umsókn vísað frá ef umsækjandi stundar ekki nám við H.Í., (sjá grein 1).

3.4.2. Rangar upplýsingar
Komi í ljós eftir að leigusamningur er undirritaður, að upplýsingar sem fram koma í umsókn eða fylgiskjölum hennar eru rangar fellur úthlutunin úr gildi og er leigutaka skylt að kröfu Stúdentagarða að rýma húsnæðið þegar í sað eftir að honum berst skrifleg tilkynning um riftun, hafi hann veitt íbúð/herbergi viðtöku.

3.4.3. Umsækjandi á húsnæði
Komi í ljós við afgreiðslu umsóknar að umsækjandi sé skráður eigandi að íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, skal óskað eftir staðfestingu á að eignin sé í sölumeðferð eða seld. Ekki er heimilt að úthluta íbúð til umsækjanda, nema að borist hafi staðfesting á sölu íbúðarhúsnæðis. Komi í ljós, við undirskrift samnings eða síðar á leigutímabilinu, að umsækjandi eigi íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, er heimilt að rifta leigusamningi, hafi verið til hans stofnað. Til höfuðborgarsvæðisins teljast Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Garðabær og Álftanes. Umsækjandi sem skráður er eigandi að íbúðarhúsnæði utan höfuðborgarsvæðis skal vera samþykktur á biðlista en flokkast í forgang E, sjá grein 7 í úthlutunarreglum.

3.4.4. Óskilvísi umsækjanda
Umsókn er ekki samþykkt ef umsækjandi skuldar húsaleigu í einn mánuð eða meira vegna vistar sinnar á Stúdentagörðum. Sama gildir ef umsækjandi er í vanskilum vegna annarra viðskipta við Félagsstofnun stúdenta. Eins er heimilt að vísa frá umsókn ef að umsækjandi hefur áður dvalið á görðum en verið vísað af görðum sökum vanefnda á samningi, skorts á einingum eða vanskila. Umsóknum um milliflutning í stærri íbúð verður vísað frá, sé umsækjandi í vanskilum við Félagsstofnun stúdenta. Gildir ákvæði þetta jafnframt um endurnýjun/framlengingu leigusamninga og nýja leigusamninga.

3.4.5. Brot á reglum
Hafi umsækjanda verið vísað af Stúdentagörðum vegna brota á reglum skal umsókn hans vísað frá. Fari fram ólögmæt starfsemi í íbúðinni af hálfu leigjanda eða einhvers á hans vegum skal heimilt að segja leigusamningi samstundis upp og rýma íbúðina þegar í stað.
 
4. Staðfesting umsóknar
4.1. Umsókn samþykkt
Þegar umsókn hefur hlotið samþykki Stúdentagarða, þarf umsækjandi að staðfesta veru sína á viðkomandi biðlista milli 1.-5. hvers mánaðar. Ef umsókn er ekki staðfest innan tilskilins tíma eyðist hún sjálfkrafa og fellur viðkomandi út af biðlista.

 4.2. Umsækjandi fær garðvist

Hafi umsækjandi fengið úthlutað húsnæði skal hann staðfesta samþykki sitt innan 48 klukkustunda frá úthlutun. Hafi slík staðfesting ekki borist innan tilskilins frests fellur úthlutunin niður. Við undirritun samnings þarf leigjandi að greiða óafturkræft umsýslugjald, sem er innheimt á fyrsta leiguseðli hvers leigutímabils skv. gjaldskrá Stúdentagarða og einnig greiðist gjald þetta á hverju ári þ.e. við endurnýjun/framlengingu samninga. Allir umsækjendur sem ekki hafa lögheimili á Íslandi greiða tryggingafé áður en að undirritun samnings kemur sem samsvarar einni mánaðarleigu eða að lágmarki kr. 70.000 kr, ef mánaðarleiga er lægri. Auk tryggingarfés greiðir viðkomandi 10.000 krónur í þrifagjald. Tryggingafé þetta er að fullu endurgreitt við brottför, séu allir reikningar greiddir og engar skemmdir hafi orðið á húsnæðinu eða fylgihlutum þess. Tryggingafé er endurgreitt með verðbótum, en án vaxta.
 
5. Leigusamningar
5.1. Undirritun leigusamnings
Fái stúdent úthlutað herbergi eða íbúð er honum skylt að undirrita leigusamning sem skrifstofa Stúdentagarða lætur honum í té og inniheldur nánari ákvæði um réttindi og skyldur leigutaka á Stúdentagörðum. Undirritun samnings skal fara fram innan viku frá því að úthlutun er þegin. Lyklar að húsnæði skulu einungis afhentir nýjum leigutökum gegn framvísun undirritaðs leigusamnings. Leigusamningar eru almennt gerðir til eins árs í senn nema á Gamla Garði, þar sem um níu mánaða samning er að ræða. Undantekningar eru í einhverjum tilfellum þar sem erlendur nemandi er aðeins með leyfi fyrir einu misseri í skiptinámi. Við þá er hægt að gera samning til eins misseris. Samningar sem gerðir eru eftir að leigutímabil er hafið, gilda einungis til loka þess tímabils. Óski leigutaki eftir aukaeintaki greiðir hann fyrir það samkvæmt gjaldskrá Stúdentagarða.

5.2. Beiðni um endurúthlutun/framlengingu samnings

Unnt er að endurnýja/framlengja leigusamning, þ.e fyrir sama tímabil næsta árs á eftir hverju tímabili samnings. Skilyrði þess að leigutaka sé unnt að endurnýja leigusamning og gera nýjan samning við leigusala er, að hann uppfylli skilyrði úthlutunarreglna Stúdentagarða. Leigjandinn þarf að hafa staðið í skilum með leigugreiðslur og sé ekki í vanskilum vegna annarra viðskipta við Félagsstofnun stúdenta. Leigjandi hafi ekki gerst sekur um vanefndir eða brot, sem varðað geti uppsögn eða riftun leigusamningsins eða að öðru leyti vanefnt skyldur sínar á þann veg eða sýnt af sér slíka háttsemi að eðlilegt megi telja að leigusali vilji ekki leigja honum áfram. Skal leigusali tilkynna leigutaka með eins mánaðar fyrirvara, ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði til áframhaldandi leigu og um ástæður þess. Beiðni um endurúthlutun/framlengingu þarf að berast til skrifstofu Stúdentagarða fyrir 20. apríl ár hvert eða a.m.k þremur mánuðum áður en upphaflegu tímabili lýkur.

Endurnýjun leigusamningsins fer þannig fram, að leigutaki skráir sig inn á heimasvæði sitt með sérstöku notendanafni og lykilorði, sem leigusali lætur honum í té við undirritun fyrri leigusamings. Þar smellir leigutaki á flipa með heitinu "endurnýjun leigusamnings" og skráir þar þær upplýsingar sem krafist er og styður svo á flipann "senda umsókn um endurnýjun". Leigusali staðfestir móttöku umsóknar rafrænt. Fallist leigusali á umsóknina sendir hann staðfestingu þess efnis til leigutaka með tölvpósti og er þá kominn á nýr samingur með aðilum sama efnis og upphaflegur leigusamingur. Gilda þá öll ákvæði samnings þessa um hinn nýja samning eftir því sem við á. Leigusali tilkynnir jafnframt leigutaka með tölvupósti ef umsókn hans er synjað.

Berist beiðni um endurnýjun/framlengingu ekki rafrænt á skrifstofu Stúdentagarða innan auglýstra tímamarka skal litið svo á, að samningur verði ekki endurnýjaður og skal viðkomandi þá rýma húsnæðið í síðasta lagi þegar gildandi samningur rennur út. Endurúthlutun/framlenging er alfarið háð því að umsækjandi uppfylli í öllu ákvæði úthlutunarreglna. Báðir aðilar paríbúða (og fjölskylduíbúða), stundi þeir nám og njóta þar sem forgangs á biðlista, þurfa að skila inn tilskildum námsárangri. Ef annar aðilinn stundar nám í öðrum skóla, þarf hann að skila inn staðfestingu um a.m.k. 2/3 þess, sem viðkomandi skóli telur fullt nám (sjá grein 9), eðlileg námsframvinda.

5.3. Barnlaust sambýlisfólk
Aðeins barnlaust sambýlisfólk getur sótt um paríbúð og skal litið svo á, að báðir aðilar séu umsækjendur og skulu báðir aðilar undirrita leigusamning.

5.4. Flutningur innan Stúdentagarða
Óski leigjandi/leigjendur eftir flutningi á milli íbúða/herbergja skal viðkomandi senda inn milliflutningsumsókn af innskráningarsíðu og verður umsóknin metin. Skrifstofa Stúdentagarða getur samþykkt flutninginn gegn greiðslu flutningsgjalds, samkvæmt gjaldskrá Stúdentagarða. Undanþegið flutningsgjaldi er m.a barnlaust fólk sem á von á barni og aðrar félagslegar aðstæður svo sem skilnaður.
 
6. Afhending á húsnæði
Starfsfólk á Umsjón fasteigna skal afhenda leigutaka húsnæði á fyrsta degi leigutímabils. Er þó heimilt að draga afhendingu í allt að fimm daga án þess að leiga lækki. Tilkynna skal leigutaka væntanlegan drátt á afhendingu svo fljótt sem auðið er.

6.1. Skil á húsnæði

Leigjandi skal ætíð skila húsnæði sínu útteknu og frágengnu ekki síðar en kl. 10.00 á skiladegi. Dragi leigjandi skil húsnæðis fram yfir áður ákveðina tímasetningu skal hann greiða 3 daga leigu fyrir hvern dag sem skilin dragast. Skili íbúi húsnæði illa þrifnu er notast við ræstingarþjónustu og greiðir leigjandi reikninginn, sem reiknast eftir fermetrafjölda íbúðar/herbergis.

6.2. Riftun og breyttar forsendur
Komi upp aðstæður, sem réttlæta riftun, af hálfu leigusala samkvæmt húsaleigusamningi, er uppsagnarfrestur enginn og ber leigutaka að rýma hið leigða þegar í stað eftir að honum berst tilkynning um riftun.

Hætti leigutaki í námi á leigutíma fellur leigusamningur úr gildi og er leigutaka skylt að rýma hið leigða að kröfu leigusala innan 30 daga frá því að honum var send skrifleg tilkynning um rýmingu. Hið sama á við ef leigutaki eignast húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. 
 
7. Forgangsröðun
Umsóknum um vist á Stúdentagörðum skal raða í forgangsröð samkvæmt neðangreindum reglum, að undanskildum ¼ íbúða fyrir einstaklinga og barnlaus pör sem úthluta skal til stúdenta með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu (sjá einnig grein 1.1). Hafi umsækjandi sagt upp fyrri úthlutun sinni fer hann ekki í forgang samkvæmt neðangreindu, heldur skal meðhöndla umsóknina sem nýja.

Hafi lögheimili verið flutt af höfuðborgarsvæðinu á síðast liðnum 12 mánuðum fyrir gerð umsóknar, skal kallað eftir staðfestingu á að lögheimili hafi áður verið á þeim stað og búseta á höfuðborgarsvæðinu hafi einungis verið tímabundin vegna náms. Búseta á höfuðborgarsvæðinu telst hins vegar hafa verið varanleg, ef meira en ár er síðan að lögheimili var flutt þangað.

7.1 Einstaklingsherbergi/íbúðir

Umsóknir um einstaklingsherbergi/íbúðir skulu flokkaðar á eftirfarandi hátt:
 • Forgangur A: Núverandi íbúar sem uppfylla almenn skilyrði um úthlutun. 
 • Forgangur B: Erlendir stúdentar sem liður 1.2 á við. 
 • Forgangur C: Umsækjendur með lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins (sjá grein 1.1), þar á meðal erlendir stúdentar sem B-liður á ekki við. 
 • Forgangur D: Umsækjendur með lögheimili og búsetu á höfuðborgarsvæðinu.
 • Forgangur E: Umsækjendur sem eiga húsnæði utan höfuðborgarsvæðis.

7.2 Paríbúðir
Umsækjendur um paríbúðir skulu vera barnlausir. Aðal umsækjandi skal stunda fullt nám við Háskóla Íslands. Umsóknir og forgangur raðast á eftirfarandi hátt.

 • Forgangur A: Núverandi íbúar sem uppfylla almenn skilyrði um úthlutun. Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur B: Erlendir stúdentar sem grein 1.2 á við. Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur C: Umsækjendur með lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins (sjá grein 1.1). Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur D: Umsækjendur með lögheimili og búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur E: Umsækjendur þar sem annar aðilinn stundar nám við HÍ, en maki er í öðrum íslenskum skóla á háskólastigi og skal hann skila inn staðfestingu þess efnis/Umsækjendur sem eiga húsnæði utan höfuðborgarsvæðis. Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur EE: Umsækjendur þar sem annar aðilinn stundar nám við HÍ, en maki er í framhaldsskóla eða iðnskóla og skal viðkomandi skila inn staðfestingu þess efnis/Umsækjendur sem eiga húsnæði utan höfuðborgarsvæðis.
 • Forgangur E3: Umsækjendur þar sem annar aðilinn stundar nám við HÍ, en maki stundar ekki nám.
 • Forgangur T: Umsókn um milliflutning 

Endurnýjun leigusamnings einstaklinga í forgangi EE og E3, skal metið fyrir hvert nýtt tímabil út frá biðlista og hærri forgangi (A; B, C, D og E)

7.3 Fjölskylduíbúðir, umsækjendur með börn
Umsóknir um íbúðir skulu flokkaðar á eftirfarandi hátt:

 • Forgangur A:  Núverandi íbúar sem uppfylla almenn skilyrði um úthlutun. Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur B: Erlendir stúdentar sem grein 1.2 á við. Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur C: Sambýlisfólk, bæði í námi/einstætt foreldri með tvö börn eða fleiri. Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur CC: Sambýlisfólk, bæði í námi/einstætt foreldri með eitt barn.  Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur C3: Sambýlisfólk, umsækjandi í HÍ en maki í öðrum háskóla á Íslandi, með 2 börn eða fleiri. Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur C4: Sambýlisfólk, umsækjandi í HÍ en maki í öðrum háskóla á Íslandi, með eitt barn. Báðir skulu uppfylla skilyrði um einingar.
 • Forgangur D: Sambýlisfólk þar sem maki stundar ekki fullt nám, með tvö börn eða fleiri. 
 • Forgangur DD: Sambýlisfólk þar sem maki stundar ekki fullt nám, með eitt barn.
 • Forgangur E: Umsækjendur sem eiga húsnæði utan höfuðborgarsvæðis.

Öðrum umsóknum skal vísað frá.

7.4 Flutningur milli flokka
Úrskurðarnefnd (sjá 11.gr.) er heimilt að flytja umsækjendur milli flokka, ef sýnt er fram á að viðkomandi búi við slæmar félagslegar aðstæður. Skal skrifleg beiðni um slíkt send á urskurdarnefnd(hjá)fs.is um leið og umsókn er send inn. Gögnum til stuðnings beiðninni skal skilað inn eða send á skrifstofu Stúdentagarða.

7.5 Röðun innan flokka
7.5.1 Einstaklingsherbergi/íbúðir 
50% af öllu lausu húsnæði til ráðstöfunar við haustúthlutun er úthlutað til nýnema og 50% til þeirra sem lengra eru komnir.

7.5.2 Paríbúðir 
40% af öllu lausu húsnæði til ráðstöfunar við haustúthlutun er úthlutað til nýnema og 60% til þeirra sem lengra eru komnir.

7.5.3 Fjölskylduíbúðir 
30% af öllu lausu húsnæði til ráðstöfunar við haustúthlutun er úthlutað til nýnema og 70% til þeirra sem lengra eru komnir. Þeir sem eru með tvö börn eða fleiri hafa forgang í þriggja herbergja íbúðir.
Fjölskyldur með eitt barn á skólaaldri ganga fyrir fjölskyldum með yngra barn er kemur að úthlutun á 3ja herbergja íbúðum.
Maki í fjölskylduíbúð sem stundar nám við HÍ/annan háskóla, þarf einnig að uppfylla skilyrði um einingar.

7.6 Breyttar aðstæður
Verði sérstakar breytingar á aðstæðum íbúa Stúdentagarða milli úthlutana, t.d. sambúðarslit eða þungun, er starfsmönnum Stúdentagarða heimilt að meta umsóknir um flutning í forgang eftir aðstæðum (einstaklingsíbúð/herbergi, paríbúð, fjölskylduíbúð).

 
8. Biðlistar

Þeir umsækjendur sem ekki fá úthlutað eru áfram á biðlista. Sá sem er efstur hverju sinni hefur forgang að húsnæði sem losnar. Úrskurðarnefnd er heimilt að víkja frá röðun á biðlista eða setja nýjan umsækjanda á biðlista, ef sérstakar félagslegar aðstæður eru fyrir hendi. Almennar umsóknir um flutning milli íbúða á leigutímabilinu raðast á viðkomandi biðlista í þeirri röð, sem þær berast og kemur fyrsta flutningsumsókn númer 5 á biðlista og síðan í fimmta hvert sæti eftir það. Í þriðja skipti sem umsækjendur hafna tilboði um íbúð falla þeir sjálfkrafa út af öllum biðlistum og verða þá að sækja um að nýju.

8.1 Gerðir eru eftirfarandi biðlistar

 • Biðlisti fyrir einstaklingsherbergi á Gamla-Garði (erlendir styrkþegar hafa forgang (sjá grein 1.2).
 • Biðlistar fyrir einstaklingsherbergi á Ásgörðum (tvíbýli). 
 • Biðlisti fyrir einstaklingsherbergi á Oddagörðum 14 og 16
 • Biðlistar fyrir einstaklingsíbúðir á háskólasvæði; Ásgarðar, Oddagarðar og Skerjagarður
 • Biðlistar fyrir einstaklingsíbúðir í miðbæ; Skuggagörðum og Skjólgarði
 • Biðlisti fyrir paríbúðir á Ásgörðum, Oddagörðum og Skjólgörðum
 • Biðlisti fyrir tveggja herbergja íbúðir in Hjónagarðar, Vetrargarðar and Skógargarðar
 • Biðlistar fyrir þriggja herbergja íbúðir in Hjónagarðar, Vetrargarðar and Skógargarðar
 • Biðlisti fyrir fjögurra herbergja íbúð á Vetrargarð, Ásgarðar

8.2 Röðun á biðlista
Við röðun á biðlista gildir forgangsröðun (sjá grein 7). Óski umsækjandi ekki eftir að vera á biðlista, eða hann fellur út af biðlista af öðrum ástæðum, færast þeir sem neðar eru upp um eitt sæti á listanum.

8.3 Umsækjendur af höfuðborgarsvæðinu
Umsækjendur af höfuðborgarsvæðinu sem sækja um einstaklingsíbúðir falla í flokk D (sjá grein 7.2). Þeir færast því niður listann er nýjar umsóknir eru samþykktar inn í flokkum A, B eða C (sjá grein 7.2). Staða umsækjanda innan D flokks breytist þó ekki, þar sem hlutfallsregla gildir um úthlutun íbúða til þeirra nema.

 
9. Eðlileg námsframvinda
Námsframvinda telst vera eðlileg ef umsækjandi hefur lokið a.m.k. 40 einingum á hverju ári frá úthlutun húsnæðis, eða 2/3 hlutum þess náms sem viðkomandi deild eða skor telur vera eins árs nám. Þar af þarf að ljúka a.m.k. 18 einingum á haustönn. Sé íbúi skráður í verkefni/námskeið á sumarönn, sem skilar þeim einingum sem á vantar, getur viðkomandi fengið endurnýjun samnings til bráðabirgða. Komi í ljós að hausti að íbúi hafi ekki skilað tilskyldum einingafjölda, skal samningi rift án tafar og skal leigutaki rýma íbúð/herbergi á tilkynntum tíma, (sjá grein 6.2).

Makar: ef um maka er að ræða í fjölskylduíbúð, sem einnig stundar nám við HÍ eða annan háskóla, þarf viðkomandi að uppfylla skilyrði um einingar. Sama gildir ávalt um maka í paríbúðum.

9.1 Undanþágur frá kröfu um námsframvindu

Undanþágu hverskonar er einungis hægt að veita einu sinni hvort heldur um er að ræða veikindi, námsframvindu, fjöldatakmörkunum eða annað.

9.1.1 Fjöldatakmarkanir
Umsækjandi sem lendir í beinum fjöldatakmörkunum telst hafa sýnt eðlilega námsframvindu ef hann fullnægir skilyrðum 9. greinar hér að framan. Undanþágu vegna fjöldatakmarkana má þó aðeins veita einu sinni.

9.2 Aftur á sama námsári
Ef leigutaki er í deild, þar sem ekki er heimilt að fara á næsta ár fyrr en fyrra ári er að fullu lokið og einungis er í boði að taka þau námskeið sem eftir eru af fyrra námsári, þá er heimilt að líta svo á að námsframvinda hans sé eðlileg, ef hann hefur að jafnaði lokið 2/3 af fullu námi. Þessa undanþágu má þó aðeins veita hverjum umsækjanda einu sinni.
 
10. Hámarksdvöl
 • Miðað skal við eðlilegan námstíma er hámarksdvöl er metin, þ.e. hversu margra ára nám er lagt að baki meðan á dvöl stendur.
 • 3 ára BA/BS = 3 ára hámarksdvöl
 • 4 ára BS = 4 ára hámarksdvöl
 • 3 BA/BS/B.Ed + 2 ára MA/MS/M.Ed = 5 ára hámarksdvöl
 • 4 ár BS+MS = 6 ár
 • Læknanám = 3 ár í BS og 3 ár í Kandídat.
 • Doktorsnám, 180 ects = 3 ár
 • Doktorsnám, 240 ects = 4 ár

Endurskráning í nám lengir ekki hámarksdvöl miðað við fyrra nám. Miðað er við eitt grunnnám og að hámarki eina námsleið á framhaldsstigi.
Doktorsnemar sem þegar hafa dvalið á görðum í grunn- og mastersnámi hafa fullnýtt dvalartíma sinn.
Fjölskyldu- og paríbúðir; ekki er hægt að fá fullan dvalartíma fyrir hvort hjóna/pars, heldur skal búseta á görðum reiknast inn í dvalartíma óháð því, hver er skráður fyrir samningi.

Ekki er hægt að fá hámarksdvöl framlengda nema að um mjög sérstakar aðstæður sé að ræða, svo sem alvarleg veikindi og þá eingöngu meðan á námi stendur. Skal meta það hverju sinni. 
Óski nemandi eftir að fá hámarksdvöl sinni framlengt vegna fæðingarorlofs sem tekið var fyrr á námstíma, skal meta það hverju sinni. Þó er aðeins er hægt að veita slíka undanþágu einu sinni og fyrir eitt misseri, skal þá nemandinn stunda fullt nám þann tíma. Aðeins er hægt að óska eftir slíkum viðbótar dvalartíma fyrir annað foreldri barns/barna. 
Úrskurðarnefnd fjallar um slík mál, sjá nánar grein 12. Skal beiðni um framlengingu umfram hámarksdvöl berast með a.m.k. 3 mánaða fyrirvara.

10.1 Útskrift
Að lokinni útskrift í júní hefur leigutaki heimild til að ljúka þeim samningi sem í gildi er. Þeir sem útskrifast í febrúar skili af sér íbúðum í lok maí og þeir sem útskrifast í október skili af sér íbúðum um áramót.

 
11. Framleiga

Framleiga herbergja og íbúða á Stúdentagörðum er með öllu óheimil, hvort sem slíkt er gegn gjaldi eður ei. Rétt til búsetu í tiltekinni íbúð/herbergi hafa aðeins þeir sem teknir eru fram á umsókn og á leigusamningi, hvort sem um lengri eða skemmri tíma er að ræða.

11.1 Skiptinám

Hægt er að sækja um undanþágu á framleigu vegna skiptináms til skrifstofu Stúdentagarða, ef leigutaki deilir ekki húsnæði með öðrum stúdentum. Skal leigutaki senda inn formlega ósk um leyfi til að framleigja til annars stúdents við Háskóla Íslands. Leigutaki tekur jafnframt fram hvort um eitt til tvö misseri er að ræða. Þó aldrei lengur en tvö misseri. Leigutaki er ekki undanskilinn einingaskilyrðum meðan á skiptinámi stendur.

 
12. Úrskurðarnefnd
Úrskurðarnefnd er skipuð þremur fulltrúum, einum frá Stúdentagörðum, einum frá S.H.Í. og einum frá Náms- og starfsráðgjöf H.Í. Nefndin skal skera úr öllum ágreiningsmálum sem upp koma varðandi umsóknir og úthlutanir og er niðurstaða nefndarinnar endanleg.
 
13. Trúnaður
Farið skal með umsóknir og upplýsingar sem þeim fylgja sem trúnaðarmál og hvílir þagnarskylda á starfsmönnum Stúdentagarða og úrskurðarnefnd.
 
14. Endurskoðun úthlutunarreglna
Stjórn F.S. setur úthlutunarreglur. Telji hún ástæðu til að breyta þeim skulu þær endurskoðaðar og samþykktar.
15. Gögn um umsækjendur

Umsækjendur gefa Stúdentagörðum leyfi til þess að sannreyna upplýsingar sem látið er í té og leyfti til þess að geyma þær upplýsingar sem þeir gefa, þær upplýsingar sem verða til í samskiptum og í búsetu á Stúdentagörðum.