Covid 19

Covid 19

Stúdentagarðar FS hafa ákveðið að draga úr kröfum um námsframvindu haustmisserið 2020.
Fullt nám telur til 30 eininga á misseri en samkvæmt úthlutunarreglum Stúdentagarða er gerð krafa um að íbúar nái 20 einingum á misseri til að halda búseturétti. Ákveðið hefur verið að lækka námsframvinduskilyrði í 15 einingar fyrir haustönn 2020, þ.e. að íbúar skili 50% af einingafjölda fulls náms.


Vegna nýjustu upplýsinga um útbreiðslu Covid-19 smita í samfélaginu verður aðalskrifstofu FS á Háskólatorgi lokað fyrir utanaðkomandi umferð frá og með miðvikudeginum 7. október. Við munum gera okkar besta til að leysa skjótt og örugglega úr ykkar málum í gegnum tölvupóst eða síma, og opna aftur um leið og við getum.

Stúdentagarðar studentagardar@fs.is
Háma hama@fs.is
Félagsstofnun stúdenta fs@fs.is
Sími 570 0700

 

Mikilvægt er að nemendur við Háskóla Íslands og íbúar Stúdentagarða fylgist vel með sóttvarnarreglum hverju sinni og framfylgi þeim í einu og öllu. Nýjustu upplýsingar má finna á covid.is
Við leggjum áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir; tryggjum nándarmörk, handþvott og sótthreinsun.

Íbúar á Stúdentagörðum skulu hafa samband við starfsfólk Stúdentagarða í tölvupósti, netspjalli eða í gegnum síma. Ekki  skal koma á skrifstofu Stúdentagarða, Háskólatorgi eða á skrifstofu Umsjónar Fasteigna í Eggertsgötu nema að nauðsyn sé og skal þá bera grímu og sótthreinsa hendur áður. 

Núgildandi sóttvarnarreglur eru á þá leið að allir sem koma frá útlöndum, frá og með 19. ágúst verða að fara í skimun á landamærum, sóttkví í 5-6 daga og aðra skimun að henni lokinni. Það þýðir að þeir nemendur sem eru að koma frá útlöndum og munu deila húsnæði með öðrum nemendum geta ekki tekið við húsnæðinu fyrr en að sóttkví lokinni. Lyklar verða ekki afhentir þeim nemendum fyrr en þeir framvísa neikvæðri niðurstöðu úr seinni skimun. Þessir nemendur hafa fengið upplýsingar um stöðuna, lista yfir húsnæði sem fellur undir skilyrði sóttvarnarákvæða og tilboð frá hóteli sem býður stúdentum við HÍ sérstök kjör á gistingu í sóttkví.

Aðrir stúdentar sem eru að sækja lykla til Umsjónar Fasteigna skulu tryggja tveggja metra regluna, vera með grímu og nota handspritt. 

Til að bregðast við því ástandi sem skapast hefur vegna heimsfaraldursins Covid-19 drógu Stúdentagarðar FS tímabundið úr kröfum um námsframvindu. Að loknu skólaárinu haust 2019 - vor 2020 nægði að þeir sem sóttust eftir áframhaldandi búsetu næðu 20 ects einingum samtals á báðum misserum, þ.e. haust 2019 og vor 2020. Auk þess var reglum um hámarksdvalartíma ekki fylgt eftir á vormisseri 2020. 

Þeim sem lentu í tímabundnum tekjumissi vegna aðstæðnanna vear gefið svigrúm til að greiða 75% af leiguverði fram til 30. júní, þ.e. leigu í apríl, maí og júní.  Eldri gjalddagar óbreyttir. Þeir sem kusu þetta úrræði þurftu að hafa gert upp útistandandi skuld 30. júní 2020. Var það skilyrði fyrir endurúthlutun á haustmisseri 2020. Reglur um uppsögn á leigusamningi voru og eru óbreyttar.

Með þessari ákvörðun er stjórn FS að veita tilslökun á leigugreiðslum tímabundið vegna aðstæðnanna.

Þá ákvað stjórn FS að opna fyrir móttöku nýrra umsókna um húsnæði á Stúdentagörðum fyrr en áður. Nýir nemendur við HÍ gátu því sótt um frá og með 1. maí í stað 1. júní samkv. úthlutunarreglum.

Sjóður Háskóla Íslands

Úrræði til að bregðast við stöðu stúdenta við Háskóla Íslands búsettum á Stúdentagörðum sem eru í miklum greiðsluvanda:
 Félagsstofnun stúdenta, Stúdentaráð Háskóla Íslands og Háskóli Íslands hafa unnið að því að finna leið til að koma til móts við þá sem eiga í mestum greiðsluvanda á Stúdentagörðum. Hefur Háskóli Íslands brugðist við með því að ráðstafa fjármagni í sjóð sem starfa mun tímabundið og er um takmarkað fé að ræða. Í fyrstu umferð gátu þeir sótt um sem voru með leigusamninga á uppsagnarfresti á Stúdentagörðum og í miklum greiðsluvanda.  Í öðrum umgangi, eftir eindaga í júlí, geta þeir sótt um sem eru í miklum greiðsluvanda og hafa ekki greitt apríl, maí og/eða júní. Í sjóðnum eru fulltrúar frá Háskóla Íslands, Stúdentaráði og Félagsstofnun Stúdenta, þær Erla Guðrún Ingimundardóttir, Isabel Alejandra Diaz og Dröfn Sigurbjörnsdóttir.